Erlent

Útsendarar Rússlands sagðir að baki óeirðunum í Austur-Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Öryggissveitir í Úkraínu reyndu í dag að ná opinberum byggingum í þremur borgum við landamæri Rússlands af mótmælendum með misjöfnum árangri. Þeim tókst að ná yfirtökunum í einni borg, á meðan mótmælendur hertu tak sitt í Donetsk.

AP fréttaveitan segir frá þessu.

Yfirvöld segja mótmælendur í borginni Luhansk hafa komið fyrir sprengiefnum í höfuðstöðvum öryggisþjónustu Úkraínu í borginni og hafi 60 manns í gíslingu. Þeir sem halda byggingunni gáfu frá sér myndband þar sem farið er fram á atkvæðagreiðslu um aðskilnað frá Úkraínu.

Reuters segir mótmælendurna hafa neitað fyrir að vera með gísla og sprengiefni. Þeir hefðu þó fundið sjálfvirk vopn í húsinu.

Þá sögðu þeir að öllum tilraunum yfirvalda til að ná tökum á byggingunni yrði mætt með vopnaðri mótspyrnu.

Grímuklæddur maður sagði í myndbandinu að þeir sem héldu byggingunni væru fyrrverandi hermenn í her Sovétríkjanna og hefðu allir barist í Afganistan. Ef yfirvöld myndu reyna að ná byggingunni aftur á sitt vald yrðu öryggissveitirnar boðnar velkomnar til helvítis.

Stjórnvöld í Úkraínu og Bandaríkjunum saka Rússa um að standa að baki óreiðunum og segja stjórnvöld þar ætla að nota þær til að hernema svæðið eins og Krímskaga. Samkvæmt NATO eru um 40 þúsund rússneskir hermenn við landamæri Úkraínu.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hótaði hertum viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi.

„Það sem við sjáum frá Rússlandi eru ólöglegar aðgerðir til að grafa undan sjálfstæðu ríki og búa til hættuástand ,“ sagði Kerry. Hann bætti við að mótmælin í austurhluta Úkraínu væru skipulagðar til að réttlæta hernaðaríhlutun eins og á Krímskaga.

Hann sagði það ljóst að útsendarar Rússlands hefðu komið mótmælunum af stað.

Hér að neðan má sjá frétt Reuters um málið.

Öryggissveitir náðu tökum á opinberum byggingum sem mótmælendur höfðu tekið yfir í borginni Kharkiv.Vísir/AP

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×