Enski boltinn

Þúsundasti leikur Wengers breyttist í martröð | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger og lærisveinar hans fengu vænan rassskell í 1000. leik Frakkans sem stjóri Arsenal en liðið tapaði, 6-0, fyrir Chelsea í toppslag á Brúnni í dag.

Veislan hjá Chelsea hófst strax á fimmtu mínútu þegar Samuel Eto'o skoraði laglegt mark eftir skyndisókn heimamanna.

Þjóðverjinn Andre Schürrle lagði upp fyrsta markið og skoraði svo annað markið tveimur mínútum eftir að Kamerúninn hafði komið heimamönnum á blað.

Vendipunktur leiksins var svo á 17. mínútu þegar Alex Oxlade-Chamberlain varði skot með hendi sem var á leiðinni framhjá.

Andre Marriner, dómara leiksins, tókst þó að reka rangan mann af velli en hann sendi bakvörðinn Kieran Gibbs í sturtu fyrir brotið.

Eden Hazard skoraði úr vítinu, 3-0, og Brasilíumaðurinn Oscar bætti við fjórða markinu á 42. mínútu og staðan í hálfleik, 4-0.

Manni fleiri voru Chelsea-menn betri aðilinn og þeir Oscar og MohamedSalah bættu við sitthvoru markinu í síðari hálfleik. Niðurlægingin algjör, 6-0.

Chelsea er eftir leikinn með 69 stig í toppsæti úrvalsdeildarinnar, sjö stigum á undan Liverpool sem á tvo leiki til góða en Liverpool mætir Cardiff núna klukkan 15.00.

Arsenal er einnig sjö stigum á eftir Chelsea en á aðeins einn leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×