Erlent

Krím mun tilheyra Rússlandi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Að undirritun lokinni var rússneski þjóðsöngurinn leikinn.
Að undirritun lokinni var rússneski þjóðsöngurinn leikinn. vísir/afp
Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefur undirritað sáttmála við leiðtoga í Krím um að gerast formlega hluti af Rússlandi, og um að borgin Sevastópól á Krímskaga gangi einnig inn í Rússland. Þetta var gert í rússneska þinginu fyrir skömmu og að undirritun lokinni var rússneski þjóðsöngurinn leikinn.

Pútín ávarpaði þingið fyrir skömmu, en á sunnudag samþykktu 97 prósent kjósenda í Krím að slíta sig frá Úkraínu og ganga inn í Rússland. Þingmennirnir klöppuðu ítrekað fyrir Pútín á milli þess sem hann talaði úr pontu.

Í kjölfarið kosninganna hafa refsiaðgerðir verið boðaðar gegn þeim ráðamönnum í Rússlandi og Úkraínu sem taldir eru bera ábyrgð á þjóðaratkvæðagreiðslunni, en Bandaríkjamenn og Evrópusambandið segja hana ólöglega.

Pútín sakaði Vesturveldin um tvískinnung vegna inngrips í Kósóvó árið 1999 en að á sama tíma væru aðgerðir Rússa á Krímskaga fordæmdar. Hann segir rússneska hermenn hafa verið löglega á Krímskaga fyrir kosningarnar og að herafli þeirra hafi verið aukinn, en þó aðeins upp að leyfilegu hámarki sem eru 25 þúsund hermenn.

Pútín var harðorður í garð hinnar nýju ríkisstjórnar Úkraínu.vísir/afp
Þá gagnrýndi Pútín stjórnarskiptin í Úkraínu harðlega, þegar fyrrverandi forseta landsins, Viktori Janúkovítsj, var steypt af stóli. Pútín sagði lykilmenn uppreisnarinnar vera „Rússafælna gyðingahatara“ og segir öfgamenn nú ráða ríkjum í Kænugarði.

Hann fordæmdi inngöngu Krím í Úkraínu, sem átti sér stað árið 1954 á tímum Sovétríkjanna, og sagði hann ákvörðunina hafa verið ólýðræðislega og tekna á bak við tjöldin. Vilji íbúa á Krímskaga væri skýr, þeir vilji vera hluti af Rússlandi.

„Rússland og Úkraína eru ein þjóð,“ sagði Pútín og talaði hann um að Kænugarður væri móðir rússneskra borga. „Við getum ekki án hvor annars verið,“ bætti hann við og lofaði því að Rússland myndi ávallt gæta hagsmuna Rússa í Úkraínu.

Pútín gaf í skyn að rússneski herinn myndi ekki aðhafast frekar í Úkraínu en hann sagði ringulreið ríkja í landinu og að öfgamenn væru við stjórn. Þá sagðist hann vera Vesturveldunum reiður og að sér fyndist Rússlandi hafa verið stillt upp við vegg.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.