Erlent

Algjört óvissuástand á Krímskaga

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Allt er á suðupunkti á Krímskaga en úkraínski herinn er í viðbragðsstöðu vegna hugsanlegra átaka við Rússa.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fordæmir hernaðaríhlutun Rússa í Úkraínu og hótar að beita rússnesk stjórnvöld viðskiptaþvingunum.  Þá gaf hann í skyn að Rússar ættu á hættu að missa stöðu sína í G8, hópi átta stærstu iðnríkja heims, vegna framgöngu sinnar á Krímskaga, og að Bandaríkjamenn myndu íhuga að beita þá alþjóðlegum viðskiptaþvingunum ef gripið verður til frekari aðgerða.

Barack Obama  ræddi við Vladimir Pútin, forseta Rússlands, í 90 mínútur í síma í gær og hvatti hann til að draga hersveitir sínar tilbaka. Pútin segist vera í fullum rétti til að vernda rússneska borgara á Krímskaga, sem tilheyrði Rússlandi fram til 1954, en um 60% íbúa skagans telja sig til Rússa. 

Rússneska þingið samþykkti síðdegis í gær að senda hersveitir inn fyrir landamæri Úkraínu. Pútín segist ekki hafa ákveðið hvort hann sendi aukið herlið til landsins, en rússneskir hermenn sem voru þar fyrir hafa í dag farið á milli herstöðva á Krímskaga og lagt hald á vopn Úkraínumanna. Þó hefur ekki enn komið til átaka.

Olexander Turchynov, starfandi forseti Úkraínu, hefur kallað út varalið úkraínuhers og óttast stríð.  Þá hefur öryggisgæsla verið hert í mörgum hlutum landsins, til að mynda við kjarnorkuver.

Stjórnvöld í Kænugarði hafa beðið alþjóðasamfélagið um aðstoð en öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði um málið í gær og Atlantshafsbandalagið í hádeginu í dag.

Arseniy Yatsenyuk, forsætisráðherra Úkraínu, lýsti yfir þungum áhyggjum á blaðamannafundi í morgun þar sem hann sagði allar viðvörunarbjöllur vera farnar að hringja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×