Enski boltinn

Nolan með bæði mörkin í sigri West Ham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/NordicPhotos/Getty
Kevin Nolan, fyrirliði West Ham, skoraði bæði mörk síns liðs þegar liðið vann 2-0 heimasigur á Swansea City í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Það var sama uppskriftin af báðum mörkunum en þau komu bæði eftir skallasendingar frá Andy Carroll. Carroll fékk ekki að klára leikinn en hann fékk ósanngjarnt rautt spjald á 59. mínútu og voru því West Ham manni færri síðasta hálftíma leiksins.

Bæði mörk West Ham komu í fyrri hálfleiknum. Kevin Nolan skoraði fyrra mark sitt með skoti úr teignum á 26. mínútu eftir skallasendingu frá Andy Carroll.  

Kevin Nolan bætti við öðru marki í uppbótartíma fyrri hálfleiksins þegar hann skallaði boltann í markið eftir að Carroll skallaði hornspyrnu Stewart Downing til hans.

Andy Carroll fékk rautt spjald á 59. mínútu eftir viðskipti við Chico Flores. Chico Flores fór upp á bakið á Carroll í skallaeinvígi og Carroll fór með höndina í enni Flores þegar hann var að losa sig undan þunga Chico Flores.

West Ham lék manni færri síðasta hálftímann en vörnina stóðst pressu Swansea-manna og hélt hreinu annan leikinn í röð.

Þetta var fyrsti heimasigur West Ham síðan í lok nóvember og hann kemur liðinu, í það minnsta tímabundið, upp úr fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×