Erlent

Öryggiseftirlit hert í Rússlandi vegna fjöldamorða

Birta Björnsdóttir skrifar
Öryggiseftirlit var aukið til muna í Rússlandi í dag eftir að lík fimm manna fundust í fjórum bifreiðum í Stravopol, um 300 kílómetrum austan við Sochi, þar sem Vetrarólympíuleikarnir verða settir þann 7.febrúar næstkomandi. Sprengja sprakk í nágrenninu þegar lögreglan nálgaðist eina af bifreiðunum, en engan sakaði.

Þó öryggiseftirlit hafi verið hert í dag er ekki þar með sagt að enginn hafi staðið vaktina hingað til, en um 37 þúsund lögreglu- og hermenn hafa verið kallaðir til starfa í tengslum við Ólympíuleikana.

Lögreglan handtók þrjá menn fyrr í dag grunaða um morðin, en að minnsta kosti tveir þeirra eru sagðir hafa tengsl við herská samtök íslamista. Íslamistar í Kákasushéruðunum hafa árum saman staðið í aðskilnaðarbaráttu sinni og hafa margsinnis hótað því að fjölga sprengjuárásum í aðdraganda Ólympíuleikanna, nú þegar athygli heimsbyggðarinnar beinist að Sochi.

Í lok desember létu 31 lífið í tveimur sjálfsmorðssprengjuárásum í Volgograd, sem liggur um 700 kílómetrum suð-austan við Sochi.

Alþjóðlega Ólympíunefndin sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar sprengjuárásanna í desember þar sem þeir lýstu yfir fullu trausti á hæfni rússneskra yfirvalda til að gæta öryggis á Vetrarólympíuleikunum í hvívetna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×