Óvíst er hvort að Rúnar Kristinsson verði áfram þjálfari KR en samningur hans við félagið rennur út í haust. Hann hefur verið sterklega orðaður við Lilleström í Noregi en þjálfari norska liðsins hætti í gær.
„Rúnar er nýkominn aftur til landsins eftir að hafa verið í fríi og við munum ræða við hann við fyrsta tækifæri,“ sagði Kristinn Kjærnested í samtali við Vísi í dag.
„Við vitum vel að Rúnari líður vel í KR en miðað við allt hlýtur það að teljast spennandi kostur fyrir hann að fara til Lilleström, þar sem hann þekkir vel til. Það er þó alls ekki sjálfgefið að hann hætti í KR.“
„En við þurfum að fá svar til að geta haldið áfram að vinna í okkar málum. Það er lykilatriði.“
