Erlent

Leyfilegt að kaupa 40 grömm af maríjúana á mánuði

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Yfirvöld í Úrúgvæ hafa kynnt áætlanir um lögleiðingu á framleiðslu og neyslu maríjúana í landinu. Apótek með þar til gerð leyfi munu selja eitt gramm af efninu á undir einum dollara, eða 112 krónur, og verður neytendum leyfilegt að kaupa allt að 40 grömm á mánuði.

Frá þessu er sagt á vef BBC.

Þá er tekið fram í frumvarpi, að á hverju heimili megi rækta allt að sex kannabisplöntur og að maríjúana megi reykja á sömu stöðum og sígarettur.

Úrúgvæ var fyrsta landið til að leyfa ræktun, sölu og neyslu maríjúana, en það var gert í fyrra.

Frumvarpið var sett fram af forseta landsins, Jose Mujica, og reiknað er með að það verði að lögum í næstu viku. Á næstu 15 dögum munu yfirvöld byrja að gera fyrirrækjum kleyft að rækta kannabis. Þá er áætlað að sala hefjist í apótekum í nóvember eða desember.

Ekki verður leyfilegt að reykja maríjúana á vinnustöðum og þeir sem keyra og undir áhrifum mega búast við sömu viðurlögum og þeir sem keyra undir áhrifum áfengis.

Yfirvöld vonast til þess að lögleiðingin muni gera eiturlyfjahringjum erfitt fyrir. Margir hafa þó gagnrýnt lögleiðinguna og í nýlegri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum segir að lögleiðing maríjúana muni leiða til heilbrigðisvandamála.

Frá blaðamannafundi í dag, þar sem frumvarpið var kynnt.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×