Erlent

Danskir grunnskólakennarar í verkbanni eftir páska

Aðeins kraftaverk getur komið í veg fyrir að allir grunnskólakennarar í Danmörku lendi í verkbanni af hálfu bæjar- og sveitarfélaga landsins eftir páska.

Verkbannið hefst þann 2. apríl og þá lenda hundruð þúsunda nemenda á ungum aldri í fangi foreldra sinna allan daginn.

Alls munu um 50.000 kennarar verða settir í verkbann en samningaviðræður milli stéttarfélags þeirra og bæjar- og sveitarstjórnanna eru endanlega sigldar í strand. Raunar hefur hvorki gengið né rekið í samningaviðræðunum undanfarnar vikur.

Ekki er deilt um laun heldur vinnutíma. Sem stendur er raunveruleg vinnuskylda kennaranna nokkuð undir þeim 37 tímum á viku sem kveðið er á um í samningum annarra verkalýðsfélaga í landinu. Sveitar- og bæjarstjórnir Danmerkur vilja breyta kennarasamningunum þannig að þeir fari eftir fyrrgreindri 37 tíma vinnuskyldu en því eru kennararnir alfarið á móti.

Sáttasemjari var skipaður í deilunni fyrir nokkrum vikum en hann gafst endanlega upp á því að miðla málum fyrir skömmu síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×