Erlent

Djarfar auglýsingar sagðar brot á reglum

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Svipur fyrirsætunnar á myndinni þykir gefa það til kynna að hún sé að gera eitthvað sem hana langi ekki til að gera.
Svipur fyrirsætunnar á myndinni þykir gefa það til kynna að hún sé að gera eitthvað sem hana langi ekki til að gera.
ASA, bresk samtök um siðferði á auglýsingamarkaði, segja tvær nýjar auglýsingar bandaríska fataframleiðandans American Apparel brot á siðareglum breskra auglýsenda.

Auglýsingarnar birtust á vefsíðu fyrirtækisins og í kjölfarið bárust kvartanir til ASA. Sneru kvartanirnar að djarfleika auglýsinganna og vegna þess að þær hlutgerðu konur. Úrskurður ASA staðfestir það, og segir auglýsingarnar klárt brot á fyrrnefndum siðareglum.

Í úrskurðinum segir að þó réttlætanlegt sé að sýna fáklæddar konur í fataauglýsingum sé önnur auglýsinganna niðurlægjandi vegna þess að hún sýni klof, brjóst og rasskinnar fyrirsætunnar en ekki andlit hennar.

Hin auglýsingin er sögð óþarflega djörf og vafasöm að því leyti að svipur fyrirsætunnar á myndinni þykir gefa það til kynna að hún sé að gera eitthvað sem hana langi ekki til að gera.

Niðurstaðan er því sú að American Apparel er óheimilt að birta auglýsingarnar aftur, en í yfirlýsingu frá fyrirtækinu er því haldið fram að úrskurðurinn sé einungis sýndarmennska og til þess að vekja athygli á samtökunum, en þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem ASA bannar auglýsingar American Apparel.
Samkvæmt úrskurðinum þótti ekki við hæfi að sýna brjóst, klof og rasskinnar fyrirsætunnar en ekki andlit hennar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×