Erlent

Mamman viðstödd björgun barnsins úr klóakinu

Birgir Þór Harðarson skrifar
Í rörinu Barnið fannst fast í skólpröri á mánudag. Barnið var að mestu óskaddað. nordicphotos/afp
Í rörinu Barnið fannst fast í skólpröri á mánudag. Barnið var að mestu óskaddað. nordicphotos/afp

Móðir ungabarnsins sem var bjargað úr skólpröri í fjölbýlishúsi í Kína á mánudag var sú fyrsta sem kallaði eftir aðstoð og var viðstödd á meðan björgunin fór fram. Móðirin neitaði því í fyrstu að hafa fætt barnið en viðurkenndi það svo þegar lögreglan gekk á hana.

Konan er 22 ára og leigir íbúð í fjölbýlishúsinu. Hún sagðist ekki hafa haft efni á fóstureyðingu og því hefði hún haldið því leyndu fyrir nágrönnum sínum að hún væri barnshafandi. Hún hefði því fætt barnið yfir klósettinu.

Móðirin sagðist hafa reynt að grípa barnið en það hefði runnið úr greipum hennar og ofan í pípuna. Þá hefði hún látið leigusala sinn vita hvernig á stóð, eftir að hafa reynt árangurslaust að ná því upp.

Barnið hefur verið kallað Barn 59 í fjölmiðlum erlendis vegna númersins sem það fékk á spítalanum. Kínverskir fjölmiðlar segja að þegar björgunarmenn hafi náð barninu hafi hjartsláttur þess verið veikur en barnið þó að mestu óskaddað. Naflastrengurinn var enn tengdur við fylgjuna.

Kínversk lögregla verst frekari fregna af málinu og segir það enn vera í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×