Erlent

Óttuðust sprengju um borð í flugvél

tengist morðinu Viðbúnaðurinn við Stansted-flugvöll í gær og lokun M6-hraðbrautarinnar eru tengd morðinu á hermanninum Lee Rigby á miðvikudag. Fjölskylda hans ræddi við fjölmiðla í herstöð í gær. nordicphotos/afp
tengist morðinu Viðbúnaðurinn við Stansted-flugvöll í gær og lokun M6-hraðbrautarinnar eru tengd morðinu á hermanninum Lee Rigby á miðvikudag. Fjölskylda hans ræddi við fjölmiðla í herstöð í gær. nordicphotos/afp

Tveir menn voru handteknir um borð í flugvél á Stansted-flugvelli við London í gær, eftir að tilkynnt hafði verið um ógn við farþega í vél sem var á leið frá Lahore í Pakistan til Manchester í Englandi. 297 farþegar voru um borð í vélinni.

Þegar flugmenn hennar höfðu tilkynnt að ógn steðjaði að farþegum vélarinnar voru orrustuþotur frá flughernum sendar í loftið og þær fylgdu vélinni til lendingar á Stansted.

Í kjölfarið voru mennirnir tveir handteknir og leiddir út úr vélinni. Þeir voru yfirheyrðir í gærkvöldi, en þeir eru báðir breskir ríkisborgarar. Að sögn pakistanskra embættismanna sem fjölmiðlar ræddu við í gær höfðu mennirnir tveir hótað að „eyðileggja flugvélina“ eftir að hafa rifist við flugþjóna.

Nauman Rizvi, farþegi um borð í vélinni, sagði að mennirnir hefðu reynt að nálgast flugstjórnarklefann. Þeir voru handjárnaðir í vélinni og þegar þeir höfðu verið fjarlægðir við lendingu fengu farþegar að vita að hótun um hryðjuverk hefði borist. Að sögn annarra farþega var talað um að sprengiefni væru um borð.

Enn aðrir greindu frá því að mennirnir tveir hefðu rifist sín á milli og þess vegna hefði þurft að handtaka þá. Flugvélin var rannsökuð í gær og ekki höfðu fundist neinar vísbendingar um sprengiefni eða hryðjuverk í gærkvöldi. Viðbrögð við málinu má tengja við morð sem framið var í London í vikunni, þegar tveir menn myrtu hermann með kjötöxum.

Morðið er sagt hryðjuverkaárás og öryggisgæsla hefur verið hert vegna þess um allt landið. M6-hraðbrautinni var einnig lokað í báðar áttir í nágrenni Coventry um stund í gær vegna fregna um grunsamlegan sendiferðabíl sem sagður var innihalda sprengju. Bílnum hafði verið lagt við bensínstöð og tveir menn voru sagðir haga sér grunsamlega. Lögregla og herlið komu á staðinn.

Ekki reyndist sprengja í bílnum að sögn lögreglu. „Atvikið er nú rannsakað sem umfangsmikill eldsneytisþjófnaður,“ sagði lögregla í gær. thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×