Erlent

Taka höndum saman gegn Norður-Kóreu

John Kerry ferðaðist um Asíu um helgina og heimsótti Suður-Kóreu, Kína og Japan þar sem hann hélt blaðamannafund með Fumio Kishida, utanríkisráðherra Japan. Nordicphotos/AFP
John Kerry ferðaðist um Asíu um helgina og heimsótti Suður-Kóreu, Kína og Japan þar sem hann hélt blaðamannafund með Fumio Kishida, utanríkisráðherra Japan. Nordicphotos/AFP
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir Norður-Kóreumenn vera að einangra sig enn frekar með kjarnorkuhótunum sínum. Kerry ferðaðist um Asíu um helgina og ræddi við leiðtoga nágrannaríkja Norður-Kóreu um ástandið sem skapast hefur.

„Bandaríkin munu verja bandamenn sína eins og nauðsynlegt þykir gegn þessum árásum. Okkar fyrsta val er hins vegar að ræða saman,“ sagði Kerry á fréttamannafundi í Tókýó með Fumio Kishida, utanríkisráðherra Japan, í gær.

Þar sagði hann jafnframt að mikilvægt væri fyrir Norður-Kóreu að skilja hvaða afleiðingar hótanir þeirra munu hafa fyrir þá sjálfa.

Stjórnvöld í Seúl, Peking, Tókýó og Washington hafa, að sögn Kerry, tekið höndum saman gegn Norður-Kóreu og er markmiðið kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaga.

Norður-Kórea hefur stöðugt hótað kjarnorkuárásum á valin skotmörk í Suður-Kóreu og á meginlandi Norður-Ameríku síðan Sameinuðu þjóðirnar hertu viðskiptaþvinganir sínar á landið. Stjórnvöld í Pjongjang hafa svo talið heræfingar Suður-Kóreu og Bandaríkjanna sunnan landamæranna á Kóreuskaga vera stríðsundirbúning og þannig réttlætt endurlífgaða kjarnorkuáætlun sína. 

Þrátt fyrir hótanirnar telja sérfræðingar ólíklegt að Norður-Kórea sendi kjarnorkuflaugar af stað. Þá er talið að eldflaugar þeirra dragi ekki nógu langt til að geta grandað skotmörkum í Bandaríkjunum, ef Alaska er undanskilin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×