Erlent

Samþykktu vopnasölusáttmála

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Nordicphotos/Getty
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær sögulegan sáttmála um reglur um vopnasölu. Unnið hefur verið að sáttmálanum í tæpan áratug.

154 aðildarríki greiddu atkvæði með tillögunni en þrjú ríki gegn, Sýrland, Íran og Norður-Kórea. 23 ríki sátu hjá í atkvæðagreiðslunni í gær. Samkvæmt sáttmálanum mega ríki ekki flytja út hefðbundin vopn í trássi við vopnasölubönn. Þá mega ríki ekki flytja út vopn þangað sem þau yrðu notuð í þjóðernishreinsunum, glæpum gegn mannkyni, stríðsglæpum eða hryðjuverkum. Ríki eiga samkvæmt sáttmálanum að hafa eftirlit með þessu og koma í veg fyrir að vopn þeirra nái á svartan markað.

„Við skuldum þeim milljónum, oft þeim berskjölduðustu í samfélaginu, sem hafa þurft að lifa í skugga óábyrgrar og ólöglegrar vopnasölu milli landa," sagði sendiherra Ástralíu hjá SÞ, Peter Woolcott.

Rússar og Kínverjar voru meðal þeirra sem sátu hjá, en bæði ríkin eru meðal þeirra sem mest flytja út af vopnum. Rússar sögðu vanta bann við því að selja öðrum en ríkjum vopn og fulltrúar Sýrlands voru á sama máli, enda óttast þeir vopnasölu til uppreisnarmanna þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×