Erlent

Obama vill sjálfstætt ríki Palestínu

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Gripið var fram í fyrir forsetanum á fundinum í Jerúsalem í gær, og hér leitar hann að viðkomandi. Hann gerði létt grín að því að hann væri vanur því að gripið væri fram í fyrir honum. fréttablaðið/ap
Gripið var fram í fyrir forsetanum á fundinum í Jerúsalem í gær, og hér leitar hann að viðkomandi. Hann gerði létt grín að því að hann væri vanur því að gripið væri fram í fyrir honum. fréttablaðið/ap
„Rétt eins og Ísraelar byggðu ríki í sínu heimalandi eiga Palestínumenn rétt á að vera frjálsir í sínu eigin landi," sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti á fundi með stúdentum í Ísrael í gær. Obama er í þriggja daga opinberri heimsókn þar.

Forsetinn sagði frið milli þjóðanna nauðsynlegan til að tryggja framdrátt Ísraels. „Réttur Palestínumanna til sjálfsyfirráða og réttlætis verður að vera viðurkenndur. Setjið ykkur í þeirra spor, lítið á heiminn með þeirra augum. Það er ekki sanngjarnt að palestínskt barn geti ekki alist upp í eigin ríki, og lifi öllu sínu lífi í návígi við útlenskan her sem stjórnar ferðum þess á hverjum einasta degi," sagði forsetinn einnig. Hann sagði einnig við nemendurna að á meðan Bandaríkin væru til stæðu Ísraelar ekki einir í baráttu sinni. Hann sagði Bandaríkjamenn vera bestu vini Ísraels. Ísraelar þyrftu hins vegar að draga úr einangrun sinni á alþjóðavettvangi.

Obama tók vægar til orða um landnemabyggðir Ísraela en oft áður og krafðist þess ekki að hætt yrði að byggja. Hann sagði þó að landnemabyggðirnar eyðilegðu fyrir friðarmöguleikum, enda hafi Palestínumenn gert stöðvun þeirra að forsendu fyrir friðarviðræðum.

„Pólitískt séð, sé litið til almenns stuðnings Bandaríkjamanna við Ísrael, væri auðveldast fyrir mig að leggja þetta deilumál til hliðar. Lýsa yfir ótakmörkuðum stuðningi við hvað sem Ísraelar ákveða að gera, það væri auðveldasta pólitíska brautin að feta. En ég vil að þið vitið að ég tala við ykkur sem vinur sem hefur miklar áhyggjur og mikinn áhuga á framtíð ykkar."

Bandaríkjaforseti hitti einnig forseta Palestínu, Mahmoud Abbas, í gærmorgun á Vesturbakkanum. Hann fordæmdi þar eldflaugaárásir Palestínumanna. Hann sagði Bandaríkjamenn vera á móti auknum landnemabyggðum Ísraela en sagði einnig að þær ættu ekki að vera notaðar sem afsökun fyrir aðgerðaleysi. „Ef væntingarnar eru þær að aðeins sé hægt að hafa beinar friðarviðræður þegar búið er að ákveða allt fyrirfram, þá er enginn tilgangur með viðræðunum, svo ég tel mikilvægt að komast áfram þótt margt pirri báða deiluaðila," sagði forsetinn á sameiginlegum fundi með Abbas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×