Erlent

Ballerínur sagðar þvingaðar í vændi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Nikolaí Tsiskaridse, aðaldansari ballettsins vill taka að sér stjórnina.
nordicphotos/AFP
Nikolaí Tsiskaridse, aðaldansari ballettsins vill taka að sér stjórnina. nordicphotos/AFP
Anatolí Iksanov, stjórnandi rússneska Bolsjoí-ballettsins, sagðist á blaðamannafundi á þriðjudag ekkert vilja segja um harðar ásakanir frá Nikolaí Tsiskaridse, aðaldansara ballettsins.

Tsiskarisde segir að Iksanov hafi eyðilagt ballettinn og komi fram við dansarana eins og þeir séu þrælar. Í sjónvarpsþætti á sunnudag sagðist Tsiskaridse vel geta tekið að sér að stjórna Bolsjoí.

Með honum í sjónvarpsþættinum kom fram Anastasia Volotsjkova, fyrrverandi aðaldanskona ballettsins, sem tók undir ásakanirnar og bætti því við að Iksanov hefði þvingað helstu kvendansara ballettsins til að stunda vændi. Ætlast hefði verið til af þeim að þær færu út með stjórnarmeðlimum og velgjörðarmönnum ballettsins og svæfu hjá þeim, ef eftir því væri óskað.

„Yfirmaður hringdi í þær og sagði að þær ættu að fara í partí og kvöldmat sem myndi enda í rúminu," sagði Volotsjkova í sjónvarpsþættinum. „Þegar stúlkurnar spurðu yfirmanninn hvað myndi gerast ef þær neituðu var svarið: Þið lendið þá í erfiðleikum í Bolsjoí."

Þar sem þátturinn var sýndur á ríkisrekinni sjónvarpsstöð þykir ólíklegt annað en að rússnesk stjórnvöld séu farin að hugsa sér að gera breytingar á yfirstjórn ballettsins.

Iksanov hefur stjórnað Bolsjoí-ballettinum í þrettán ár og hefur notið velvildar Vladimírs Pútín forseta. Tsiskaridse er á hinn bóginn einnig sagður njóta stuðnings í æðstu röðum rússneskra ráðamanna.

Harðvítug valdabarátta hefur geisað árum saman í ballettinum en upp úr sauð í janúar þegar ráðist var með sýru á Sergei Filin, listrænan stjórnanda ballettsins og náinn samstarfsmann Iksanovs.

Málið tók síðan nýja stefnu eftir að Tsiskaridse kom félaga sínum, dansaranum Pavel Dimitritsjenkó sem viðurkennt hefur að hafa fengið vin sinn til að þrýsta á Filin, til varnar og tók undir gagnrýni hans á Filin.

Iksanov kennir hins vegar Tsiskaridse alfarið um að hafa spillt andrúmsloftinu innan ballettsins með ásökunum sínum. Þá hefur Diljara Timergasína, aðstoðarkona Filins, tekið undir þessar ásakanir á hendur Tsiskaridse, sem hún segir aðaluppsprettu spennunnar innan flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×