Erlent

Kennir parinu að nokkru um árásina

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mennirnir voru leiddir fyrir dómara í gær, allir með hulið andlit. fréttablaðið/AP
Mennirnir voru leiddir fyrir dómara í gær, allir með hulið andlit. fréttablaðið/AP
Sex menn voru handteknir á sunnudag í Madya Pradesh á Indlandi, sakaðir um að hafa ráðist á par frá Sviss, bundið manninn við tré og nauðgað konunni.

Þau voru á reiðhjólum á leið til borgarinnar Agra, sem er skammt frá ferðamannastaðnum Taj Mahal. Þar tjölduðu þau í kjarri nokkuð frá veginum. Þau segja sjö til átta manns hafa tekið þátt í árásinni. Hinir handteknu eru allir fátækir bændur úr nágrenninu.

Talsmaður lögreglunnar hefur vakið reiði með ummælum sínum, en hann kenndi ferðamönnunum að nokkru um árásina:

„Hvers vegna völdu þau þennan stað? Þau voru á röngum stað á röngum tíma," er haft eftir talsmanninum á vefsíðu breska dagblaðsins The Independent.

Nokkur vitundarvakning hefur orðið á Indlandi í kjölfar hrottalegrar hópnauðgunar í Delhi í desember, sem kostaði unga konu lífið.

Löggjöf hefur verið hert og þyngstu fangelsisviðurlög við nauðgunum hækkuð úr tíu árum í tuttugu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×