Erlent

Johnson sakaði Nixon um landráð árið 1968

Hljóðritanir af símtölum Lyndon B. Johnson fyrrum forseta Bandaríkjanna sem nýlega voru gerðar opinberar sýna að Richard Nixon næsti forseti kom í veg fyrir að hægt væri að semja um frið í Víetnam þegar árið 1968.

Símtöl þessi voru tekin upp á búgarði Johnson í Texas meðan hann var enn forseti Bandaríkjanna en eftir að hann hafði sagt opinberlega að hann myndi ekki bjóða sig fram að nýju.

Þetta ár eða 1968 voru Bandaríkjamenn og stjórnvöld í Suður og Norður Víetnam mjög nálægt því að binda enda á stríðið í Víetnam í friðarviðræðum í París. Nixon ákvað að eyðileggja þetta ferli til að reyna að tryggja sér forsetaembættið í komandi kosningum.

Nixon kom sér upp sérstökum tengilið við sendiráð Suður Víetnam í Washington og sagði sendiherranum í gegnum þennan tengilið að þeir ættu að eyða þessum friðarumleitunum þar sem þeir fengju betri samning þegar Nixon væri orðinn forseti.

Í ítarlegri umfjöllun um málið á vefsíðu BBC segir að í símtölum Lyndon B. Johnson við leiðtoga Demókrataflokksins kemur fram að FBI hleraði síma tengiliðs Nixon og því vissi Johnson allt um málið og hvatti Demókrata til að nota það í komandi forsetakosningunum. Þeir ákváðu að gera það ekki því þeir töldu að þeir myndu vinna forsetakosningarnar. Skilaboðum var hinsvegar komið til Nixon um að Demókratar vissu af þessum "skítabrögðum" hans.

Johnson sagði að með þessu hefði Nixon gerst sekur um landráð og að hendur hans væru blóði drifnar. Þar sem Demókratar vildu ekki nota upplýsingarnar hélt Víetnam stríðið áfram og hundruð þúsunda af Víetnömum og yfir 22 þúsund bandarískir hermenn féllu í viðbót áður en Nixon viðurkenndi loks ósigur sinn í Víetnam árið 1973.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×