Erlent

Ráðstefna um lögleiðingu á hassi í Kaupmannahöfn

Frank Jensen yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar efndi til ráðstefnu um helgina í ráðhúsi borgarinnar um kosti þess og galla að lögleiða hass í Kaupmannahöfn.

Töluverð umræða hefur verið um málið í Danmörku að undanförnu og það ekki í fyrsta sinn. Borgaryfirvöld hafa lengi haft áhuga á því að lögleiða hass og ná þannig í auknar tekjur í borgarsjóð. Ríkisstjórnin er hinsvegar andvíg þessum áformum.

Talið er að lögleg velta af hasssölu muni nema yfir 4 milljörðum danskra króna eða hátt i 100 milljörðum króna á ári í Danmörku. Þessi velta er sem stendur alfarið í höndum glæpagengja sem berjast hart um yfirráðin yfir þessum markaði. Mörg dæmi um skotbardaga, morðtilraunir og alvarlegar líkamsárásir í Kaupmannahöfn undanfarnar vikur má rekja beint til þessarar baráttu.

Þeir sem eru hlynntir lögleiðingu benda einkum á þessa glæpastarfsemi enda ógnar hún orðið öryggi annarra borgarbúa. Með lögleiðingu myndu glæpirnir hverfa.

Þeir sem eru andsnúnir lögleiðingu benda einkum á að hass sé fíkniefni. Með lögleiðingu þess yrði unglingum gert enn auðveldara en nú er að nálgast og misnota það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×