Hulda Ósk Jónsdóttir var hetja íslenska 17 ára landsliðsins í fótbolta í Rúmeníu í dag þegar hún skoraði bæði mörk í 2-1 sigri á heimastúlkum. Þetta var fyrsti leikur liðsins í undankeppni EM.
Það var ekkert mark skorað í fyrri hálfleiknum en heimastúlkur komust yfir eftir átta mínútna leik í seinni hálfleik.
Hulda Ósk Jónsdóttir, sem spilar með Völsungi og kemur frá Laxamýri, tók þá til sinna ráða og setti tvö mörk, það fyrra á 57. mínútu og það síðara þegar níu mínútur lifðu eftir af venjulegum leiktíma. Blikinn Esther Rós Arnarsdóttir lagði upp bæði mörkin.
Hulda Ósk Jónsdóttir hefur nú skorað 5 mörk í 10 leikjum með íslenska 17 ára landsliðinu.
Spánn vann Írland 2-1 í hinum leik riðilsins í dag en íslensku stelpurnar mæta Írlandi á miðvikudaginn.

