Misvísandi skilaboð berast um hvað nýlegt samkomulag þýðir fyrir skerðingu flugvallarins. Forsætisráðherra leggst alfarið gegn lokun minnstu brautarinnar og segir ekkert fjallað um hana í samkomulaginu. Borgaryfirvöld skipuleggja samt nýtt íbúðahverfi á brautarstæðinu.
Hanna Birna segir mörg ár, ef ekki áratugir, síðan ríki og borg sömdu um það að þessi flugbraut skyldi fara og að við tæki önnur öryggisbraut í Keflavík.
„Ég vil standa við gerða samninga,” segir ráðherrann í viðtali á Stöð 2 og segir ríkið hafa fengið margt í staðinn, eins og að fá að byggja upp flugstöð, að tré verði klippt og að flugbrautarljós verði í lagi.

Nefnd undir forystu Rögnu Árnadóttur, fyrrverandi ráðherra, hefur núna verið falið að fullkanna alla kosti sem eru í boði um framtíðarstaðsetningu flugvallar á Reykjavíkursvæðinu. Kröfur hafa komið fram um að áður en nefndin lýkur störfum verði ekkert gert sem skerði valkostina, eins og að loka litlu flugbrautinni.
Hanna Birna segir skipulagsvinnu borgarinnar taka lengri tíma en svo. „Þannig að ég held að menn þurfi litlar áhyggjur að hafa af því. Það verða allir kostir skoðaðir. Það er búið að segja það margsinnis og ég get endurtekið það.”
Forsætisráðherra kvaðst í gær vilja vinda ofan af eldra samkomulagi um brotthvarf brautarinnar.
–Vilt þú vinna að því að snúa til baka?
„Við erum búin að vera að vinna að því, núna í langan tíma, í marga mánuði, að tryggja það að völlurinn verði áfram fullfúnkerandi. Það er búið að tryggja það til ársins 2022. Það er það sem skiptir mestu máli. Við vinnum í samræmi við það samkomulag sem við höfum gert við núverandi meirihluta í Reykjavík. Þannig er samkomulagið. Svo sjáum við til hvað framtíðin ber í skauti sér,” sagði Hanna Birna.