Erlent

Uppreisnarmenn réðust inn í SOS Barnaþorp

Vopnaðir menn, úr hópi uppreisnarmanna sem kallast Seleka, réðust inn í SOS Barnaþorpið í Bangui í Miðafríkulýðveldinu í gær í leit að vopnum.

Mennirnir leituðu í öllum húsum barnaþorpsins og fundu að sjálfsögðu engin vopn. Þeir tóku hins vegar fjóra bíla sem SOS Barnaþorpin í landinu eiga auk tölvubúnaðar og smápeninga sem starfsmenn báru á sér, segir í tilkynningu frá SOS Barnaþorpunum á Íslandi.

Hvorki börn né starfsfólk barnaþorpsins sakaði en flestir þurfa á áfallahjálp að halda, enda hótuðu uppreisnarmennirnir að taka forstöðumann barnaþorpsins af lífi. Forstöðumaðurinn slapp og segir hann að bæði börn og starfsfólk séu skelfingu lostin og sum börnin vilja helst fela sig undir rúmum sínum. Öll börnin í barnaþorpinu eiga það sameiginlegt að vera munaðarlaus eða eiga foreldra sem ekki geta séð fyrir þeim. Fjögur barnanna eiga íslenska styrktarforeldra.

SOS Barnaþorpin í Miðafríkulýðveldinu hafa þegar haft samband við yfirstjórn Seleka, franska sendiráðið og vopnaðar sveitir ECCAS (Bandalag Miðafríkuríkja) til að tryggja öryggi barnaþorpsins.

Nýjustu fréttir herma að hermenn á vegum ECCAS séu á leið til barnaþorpsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×