Erlent

Musharraf ákærður í Pakistan

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Pervez Musharraf, fyrrverandi forseti og herforingi í Pakistan.
Pervez Musharraf, fyrrverandi forseti og herforingi í Pakistan. Mynd/AP
Pervez Musharraf, fyrrverandi forseti og herforingi í Pakistan, hefur verið ákærður fyrir aðild að morðinu á Benazir Bhutto forsætisráðherra árið 2007.

Musharraf sneri aftur til Pakistans fyrr á þessu ári og gerði sér vonir um að geta endurnýjað stjórnmálaferil sinn og tekið þátt í kosningunum, sem haldnar voru í vor. Hann var hins vegar hnepptur í stofufangelsi stuttu eftir komuna til landsins.

Musharraf komst upphaflega til valda í stjórnarbyltingu hersins árið 1999, en hrökklaðist frá völdum nærri áratug síðar. 

Ákvörðun saksóknara um að draga hann fyrir dómstól markar ákveðin tímamót í Pakistan, því aldrei áður hefur verið hróflað að ráði við valdamönnum innan hersins.

Lögfræðingar hans segja ásakanirnar upplognar og ekki standast neina skoðun.

Bhutto lét lífið í sprengju- og skotárás á kosningafundi í borginni Rawalpindi árið 2007. Hún var dóttir Zufikars Alis Bhutto, sem lengi var forsætisráðherra Pakistans. Hann var myrtur árið 1977 eftir að herinn hafði steypt honum af stóli.

Dóttir hans naut mikillar virðingar í Pakistan. Hún hafði oft setið í fangelsi og flúði á endanum úr landi, en kom aftur eftir að hafa gert samning við Musharraf, sem gerði henni kleift að taka þátt í kosningum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×