Erlent

Samkomulagi náð á Bandaríkjaþingi

Elísabet Hall skrifar
Þingmenn bandarísku öldungadeildarinnar komust að samkomulagi um frumvarp til hækkunar á skuldaþaki ríkissjóðs í dag. Hlutabréfamarkaðir hafa beðið í mikilli óvissu eftir fréttum frá Washington.

Æðstu menn demókrata og repúblikana hafa unnið að málinu síðustu daga en á morgun verður skuldaþak Bandaríkjanna, sem stendur nú í 16,9 trilljónum bandaríkjadollara, fullnýtt. Ljóst var að hækka þurfti skuldaþakið til að hægt væri að standa við fjárhagslegar skuldbindingar landsins.

Skuldsetning bandaríkjanna hefur farið vaxandi og tilraunir til að finna lausn á málinu höfðu hingað til mistekist. Helsta deiluefni demókrata og repúblikanaflokkanna stóð um fjárframlög til nýja sjúkratryggingakerfisins, svokallað Obamacare, en flokkur Repúblikana neitaði að skrifa undir frumvarpið og voru það fulltrúar Teboðshreyfingarinnar svokölluðu sem gagnrýndu það hvað mest.

Harry Reid, leiðtogi demókrata, sagði á þinginu að Bandaríkin hefðu í dag staðið á barmi stórslyss.

Með því að semja um deilumálin í dag forða Bandaríkin sér frá tæknilegu gjaldþroti en þó aðeins til skamms tíma því fjárlögin munu einungis fjármagna opinberar stofnanir til 15. janúar á næsta ári og hækka skuldaþak ríkissjóðs til 7. febrúar. Fjölmargar stofnanir í Bandaríkjunum hafa verið lokaðar í þessum mánuði og starfsmenn sendir í launalaust leyfi.

Með nýsamþykktu frumvarpi verður sett á nefnd sem mun vinna frekar að langtímalausn.

Þegar fréttir af samkomulaginu bárust tóku hlutabréfamarkaðir við sér og hækkaði DOW vísitalan um meira 200 stig. 

  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×