Enski boltinn

Rooney á skotskónum í sigri United

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vítaspyrna og rautt spjald í fyrri hálfleik kom Manchester United vel í 2-0 heimasigri gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Heimamenn voru mun sterkari aðilinn í leiknum. Þeir komust nálægt því að komast yfir á 38. mínútu þegar þrumuskot Robin van Persie small í þverslánni. Wayne Rooney átti sendinguna á Hollendinginn sem tók boltann á brjóstkassann en skotið aðeins of hátt.

Gestirnir frá Lundúnum voru nærri því að komast yfir eftir klaufagang Rio Ferdinand í vörn United. Gestunum tókst þó ekki að refsa Englandsmeisturunum. Það átti eftir að kosta þá.

Rétt fyrir hálfleikinn gerðist umdeilt atvik. Ashley Young, sem hafði þegar verið áminntur fyrir leikaraskap, féll eftir viðskipti við Kagisho Dikgacoi. Dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu og vísaði varnarmanninum af velli. Umdeildur dómur en United nýtti sér hann þegar van Persie skoraði af öryggi úr spyrnunni.

Síðari hálfleikur var einstefna af hálfu heimamanna. Marouane Fellaini kom inn á sem varamaður og komst nærri því að skora en skot hans utan teigs var vel varið af Speroni í markinu. Hann kom engum vörnum við aukaspyrnu Wayne Rooney seint í leiknum. Lokatölurnar 2-0.

United hefur nú sjö stig í ensku úrvalsdeildinni en Crystal Palace þrjú stig.

Vítaspyrnudóminn má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×