Íslenski boltinn

"Hvers vegna geta Bandaríkin ekki skapað sína eigin leikmenn?“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, segir afar pirrandi að Bandaríkin þurfi að leita til knattspyrnumanns hjá þjóð sem telur aðeins 320 þúsund manns.

Geir sat fyrir svörum í bandaríska útvarpsþættinum Kick TV Talk sem sérhæfir sig í umfjöllun um knattspyrnu. Geir sagði það mikil vonbrigði að Aron hefði valið Bandaríkin og ákvörðun hans hefði komið honum á óvart.

„Ég er hissa á vali hans eftir alla hans leiki með Íslandi og feril hans hingað til. Því erum við vonsviknir."

Geir sagði miður að reglur FIFA heimili það að leikmenn geti á þennan hátt kosið að leika fyrir aðra þjóð þrátt fyrir takmörkuð tengsl og fjölda leikja með yngri landsliðum Íslands.

Aron hefur ekki tjáð sig um ástæður þess að hann valdi Bandaríkin fram yfir Ísland.

„Hann hefur ekki tjáð sig svo við vitum ekki enn hvers vegna hann valdi Bandaríkin. Við vitum ekki ástæðu valsins og þurfum að vita það," segir Geir. Hann vill meina að fjölmiðlaumfjöllun og framkoma Jürgen Klinsmann hafi klárlega haft áhrif á ákvörðun Arons.

„Þetta er pirrandi. Við erum 320 þúsund á Íslandi og þar af eru 20 þúsund knattspyrnuiðkendur. Ég skil ekki hvers vegna Bandaríkin, með hundruð þúsundir knattspyrnuiðkenda leita ekki inn á við og skapa sína eigin leikmenn."

Geir finnst að Jürgen Klinsmann eigi fyrst og fremst að leita til þeirra leikmanna sem Bandaríkin hafa sjálf þróað í gegnum árin.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Geir í spilaranum hér að ofan


Tengdar fréttir

Klinsmann vill velja Aron í landsliðið sem fyrst

"Við erum mjög spenntir fyrir því að Aron hafi ákveðið að landsliðsframi sinn verði með Bandaríkjunum,“ segir Jurgen Klinsmann, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna.

Aron valdi bandaríska landsliðið

Knattspyrnumaðurinn Aron Jóhannsson hefur sent frá sér tilkynningu um að hann ætli að leika með bandaríska landsliðinu í framtíðinni.

Mun ekki tjá sig um ástæðuna

Knattspyrnumaðurinn Aron Jóhannsson tilkynnti í dag á Fésbókarsíðu sinni að hann hefði ákveðið að spila fyrir hönd Bandaríkjanna í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×