Erlent

Banaslys í Cirque du Soleil

Boði Logason skrifar
Frá sýningum Cirque du Soleil, sem er einn frægast sirkus í heimi.
Frá sýningum Cirque du Soleil, sem er einn frægast sirkus í heimi.
Loftfimleikakona í hinni frægu Cirque du Soleil-sýningu í Las Veges lést eftir að hafa fallið um 15 metra í miðri sýningu í gærkvöldi. Vitni segja að slysið hafi átt sér stað í lok sýningarinnar.

Sú sem lést hét Sara Guyard-Guillot og var frá Frakklandi. Hún var flutt á spítala en lést af sárum sínum í nótt. Svo virðist sem öryggislæsing hafi losnað með þeim afleiðingum að hún féll á gólfið.

„Í fyrstu hélt fólk að þetta væri hluti af sýningunni en eftir að við heyrðum öskrin og listamenn gráta á sviðinu, áttuðum við okkur á því að eitthvað alvarlegt hefði átt sér stað," segir vitni.

Sýningin var stöðvuð og áhorfendum tilkynnt að þeir gætu fengið endurgreitt. Fyrirhuguðum sýningum hefur verið frestað um óákveðinn tíma.

„Ég er niðurbrotinn maður. Ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur til fjölskyldu hennar. Við erum öll miður okkar," segir Guy Laliberte, stofnandi Cirque du Soleil.

Konan sem lést var tveggja barna móðir og hafði starfað í sirkusnum í yfir tuttugu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×