Erlent

Heita 100 Big Mac hamborgurum fyrir Ronald

Þýskur McDonald's staður ætlar að gefa þeim sem getur gefið upplýsingar um hver stal styttunni af Ronald McDonald á dögunum hundrað Big Mac hamborgara. Á flestum McDonald's stöðum í heiminum er stytta af Ronald og er vinsælt hjá viðskiptavinum að láta taka mynd af sér með fígúrunni.

Á dögunum var honum hinsvegar stolið á veitingastað í Muenden en talið er að styttan sé 120 þúsund króna virði. Á Facebook-síðu staðarins er auglýst eftir styttunni og er þar tekið fram að ekki ætti að vera erfitt að finna hana - enda nokkuð óvenjuleg. Líklegt þykir að einhverjir hrekkjalómar hafi stolið styttunni frekar en skipulögð glæpasamtök.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hinum geðþekka Ronald er stolið því árið 2011 stal finnskur hópur styttunni og setti myndband á netið þar sem því var hótað að taka hann af lífi. Með þessu vildi hópurinn mótmæla óhollum mat skyndibitakeðjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×