Erlent

Sýrland: Líklegt að efnavopnum hafi verið beitt

Þorgils Jónsson skrifar
"Ef Bandaríkin vita ekki hverjir eru að beita efnavopnum gætu það allt eins verið geimverur á fljúgandi diskum,“ stendur á þessu mótmælaspjaldi sem ungur piltur hélt á lofti í mótmælum í borginni Sarmada í gær.
"Ef Bandaríkin vita ekki hverjir eru að beita efnavopnum gætu það allt eins verið geimverur á fljúgandi diskum,“ stendur á þessu mótmælaspjaldi sem ungur piltur hélt á lofti í mótmælum í borginni Sarmada í gær. Mynd/AP

Ýmislegt bendir til þess að efnavopn hafi verið notuð í takmörkuðu magni í fjórum atvikum í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Sameinuðu þjóðanna, en frekari rannsókna er þörf til að greina hvaða efni voru notuð og hver af hinum stríðandi aðilum beitti þeim.

Ásakanir um grimmdarverk og stríðsglæpi ganga milli stjórnarhers Assads forseta og uppreisnarhópa, en um 70.000 manns eru taldir hafa farist í stríðinu, sem staðið hefur í rúm tvö ár.

Uppreisnarhópar segja að stjórnarherinn hafi notað efnavopn í fjögur skipti, en í skýrslunni segir að ekki sé hægt að staðfesta slíkt endanlega nema með nánari rannsókn og biðlar til stjórnvalda í Damaskus að hleypa rannsóknarteymi inn í landið, en stjórnvöld taka fyrir allt slíkt.

Í skýrslunni, sem var unnin frá janúar fram í miðjan síðasta mánuð, eru bæði stjórnarherinn og uppreisnarhópar sakaðir um stríðsglæpi. stjórnarherinn er sakaður um nauðganir, morð, nauðaflutninga og mannshvörf, en uppreisnarhóparnir eru sakaðir um aftökur án dóms og laga, pyntingar, gíslatökur og gripdeildir.

Brot uppreisnarhópa eru hins vegar ekki talin eins víðtæk né gróf og brot stjórnarhersins og tengdra vígahópa.

Í skýrslunni er einnig fjallað um breytta afstöðu Evrópusambandsins, sem ákvað á dögunum að framlengja ekki vopnasölubann til stríðandi aðila í Sýrlandi.

Er látið að því liggja að sala vopna til uppreisnarhópa gæti orðið til þess að auka hættuna á grimmdarverkum og frekara mannfalli í hópi almennra borgara.

„Stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyninu eru daglegt brauð í Sýrlandi þar sem sláandi frásagnir fórnarlamba eru sem brennt í samvisku okkar,“ segir í skýrslunni.

„Aukið aðgengi að vopnum í Sýrlandi mun hafa í för með sér enn frekari þjáningar og dauða."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×