Erlent

Fórnarlamba á Tiananmen-torgi minnst í Hong Kong

Þorgils Jónsson skrifar
Í Hong Kong er boðað til minningarathafnar um atburðina á Tiananmen-torgi fyrir 24 árum þar sem kínverski herinn barði niður friðsöm mótmæli.
Í Hong Kong er boðað til minningarathafnar um atburðina á Tiananmen-torgi fyrir 24 árum þar sem kínverski herinn barði niður friðsöm mótmæli. Mynd/AP

Búist er við því að tugir þúsunda munu koma saman í Viktoríugarði í Hong Kong í árlegri athöfn til að minnast mótmælanna á Tiananmen-torgi í Beijing. 24 ár eru í dag liðin frá því að kínverski herinn réðist til atlögu gegn mótmælendum sem kröfust lýðræðisumbóta.

Hundruð manna eru talin hafa fallið í atlögu hersins, og þúsundir voru fangelsaðir, en Kommúnistaflokkurinn, sem ræður ríkjum í Kína, hefur aldrei gengist við því að hafa gengið of hart fram þennan örlagaríka dag.

Á meginlandi Kína eru athafnir sem þessar bannaðar. Á félagsmiðlum eins og Weibo, kínversku útgáfunni af Twitter, var einnig búið að loka fyrir leitir að orðum eins og „minnast“ og að dagsetningunni 4. júní. Þá var lokað fyrir notkun táknsins (emoticon) fyrir kerti í dag.

Eftir athöfnina ráðgera margir að ganga að stjórnarskrifstofunni í Hong Kong þar sem kallað verður eftir því að kommúnistaflokkurinn ráðist í lýðræðisumbætur og leyfi fleiri stjórnmálaflokka, minnist fórnarlambanna á Tiananmen torgi og sleppi öllum pólitískum föngum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×