Erlent

Meðlimur Navy SEALs í kynleiðréttingu

ÞJ skrifar
Chris Beck stríddi um árabil við kynáttunarvanda, meðal annars á meðan hann gegndi herþjónustu, en tók svo þá ákvörðun að fara í kynleiðréttingaraðgerð. Hún heitir nú Kristin Beck og gaf nýlega út bókina "Warrior Princess“ þar sem hún gerir upp lífshlaup sitt.
Chris Beck stríddi um árabil við kynáttunarvanda, meðal annars á meðan hann gegndi herþjónustu, en tók svo þá ákvörðun að fara í kynleiðréttingaraðgerð. Hún heitir nú Kristin Beck og gaf nýlega út bókina "Warrior Princess“ þar sem hún gerir upp lífshlaup sitt.

Kristin Beck á að baki feril sem engin önnur kona getur státað af. Hún var um tveggja áratuga skeið meðlimur í sérsveit bandaríska sjóhersins, Navy SEALs.

Kristin gekk þá undir nafninu Chris Beck en hún gekkst undir kynleiðréttingaraðgerð árið 2011, eftir að hún hætti herþjónustu.

Kristin sendi nýlega frá sér bókina Warrior Princess, þar sem hún greinir frá lífshlaupi sínu, en á árum sínum í hernum fór hún meðal annars þrettán sinnum í ferðir, meðal annars til Bosníu, Íraks og Afganistan þar sem hún safnaði meðal annars skeggi til að dulbúa sig sem Pastúna. Hún var meðal annars sæmd purpurahjarta og bronsstjörnu fyrir afrek sín.

Á meðan ferlinum stóð glímdi Chris við kynáttunarvanda við einstakar aðstæður, en heima sátu eiginkona hans og tvö börn.

Hann ákvað síðan að láta slag standa og kom út úr skápnum sem transkona árið 2011 og hóf í framhaldinu kynleiðréttingarferlið.

Hún sagðist í viðtali vona að þessar fréttir kæmu ekki illa við þá sem höfðu þjónað með henni á ferlinum, en það virðist öðru nær og viðbrögðin úr þeirri átt eru að mestu jákvæð.

Þessi opinberun Beck varpar ljósi á misrétti sem transfólk býr við, en jafnvel þótt bann hersins við samkynhneigðum hafi verið afnumið nýlega er transfólki enn meinað að gegna herþjónustu. Vonast hún til þess að nú muni opnast fyrir almenna umræðu um stöðu transfólks og breyting verði til batnaðar í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×