Erlent

Tölvuþrjótar stálu miklu af upplýsingum frá dönsku lögreglunni

Tölvuþrjótar náðu að stela miklu magni af upplýsingum frá dönsku lögreglunni á síðasta ári þar á meðal milljónum af dönskum kennitölum.

Málið hefur vakið mikla athygli í Danmörku. Tölvuþrjótarnir náðu að brjótast inn á netþjónabú CSC í Valby en þar er aðaltölvumiðstöð lögreglunnar hýst. Fyrir utan kennitölurnar náðu tölvuþrjótarnir að stela lykilorðum 10.000 lögreglumanna sem enn eru í starfi.

Hvað kennitöluþjófnaðinn varðar kemur fram í dönskum fjölmiðlum að þær séu yfir fjórar milljónir talsins. Til dæmis var stolið kennitölum allra Dana sem eru með ökuskírteini.

Í frétt um málið á vefsíðu TV2 segir að tvítugur Dani hafi verið handtekinn vegna málsins en hann neitar sök í því. Þá hefur maður í Svíþjóð verið handtekinn vegna málsins og settur í gæsluvarðhald. Sá mun tengjast vefsíðunni The Pirate Bay og vill danska lögreglan fá hann framseldan til Danmerkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×