Erlent

Curiosity á leið í langan bíltúr

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar

Leiðangur hins frækna Curiosity-jeppa, sem ferðast hefur um yfirborð plánetunnar Mars og sent ljósmyndir og aðrar upplýsingar til jarðar, er nú sagður vera að færast upp á næsta stig.

Undanfarið hálft ár hefur hann rannsakað Glenelg-svæðið svokallaða, sem er minna en fótboltavöllur og skammt frá lendingarstað jeppans, en nú hyggur jeppinn á átta kílómetra langt ferðalag að rótum Sharp-fjalls.

„Við erum að komast á fullt skrið,“ segir Jim Erickson, verkefnastjóri hjá NASA. „Við töldum ráðlegt að fara hægt til að byrja með en nú er því lokið.“

Glenelg-svæðið er aðeins um hálfum kílómetra frá lendingarstað Curiosity, en ljóst er að jeppinn verður marga mánuði að komast að rótum fjallsins.

„Við vitum ekki hvað það mun taka langan tíma. Þetta er könnunarleiðangur, þannig að þó áfangastaðurinn sé Sharp-fjall er ekki þar með sagt að við munum ekki rannsaka áhugaverða hluti á leiðinni þangað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×