Erlent

Dramatíkin heldur áfram í Bolshoi-ballettnum

Nikolai Tsiskaridze við æfingar.
Nikolai Tsiskaridze við æfingar.

Einn frægasti balletdansari Bolshoi-balletsins hefur verið rekinn. Þannig heldur sérkennileg saga balletsins áfram, en innanhúsátök náðu hámarki þegar sýru var skvett í andlit listræns stjórnanda balletsins fyrr á árinu.

Georgíski balletdansarinn Nikolai Tsiskaridze hefur verið rekinn úr hinum heimsfræga Bolshoi-ballet. Raunar hefur dramatíkin verið ríkjandi hjá ballettinum síðustu mánuði, bæði á sviði og utan þess. Þannig leiddu innanhúsátök listamannanna til þess að einn dansari skvetti sýru á listrænan stjórnanda ballettsins í janúar síðastliðnum.

Sá var handtekinn tveimur mánuðum síðar og hefur játað árásina samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Moskvu.  

Hinsvegar var það Nikolai sem var fyrst handtekinn og yfirheyrður vegna þessa hryllilega glæps. En Nikolai hefur verið iðinn við að gagnrýna Bolshoi-ballettinn og átti í miklum útistöðum við listræna stjórnandann.  

Þá sveið forsvarsmönnum ballettsins sérstaklega undan ummælum dansarans um rándýra endurgerð leikhússins, en þá sagði Nikolai að endurbreytingarnar minntu á tyrkneskt hótel.

Ekki er ljóst hversvegna Nikolai var rekinn, upplýsingafulltrúi ballettsins sagði við fjölmiðla, að það þyrfti ekki að gefa neinar skýringar þegar starfsfólki væri sagt upp. 

Fyrr á árinu kom fram að hann væri æviráðinn og því væri ómögulegt að reka hann, en Nikolai er tæplega fertugur.  

Dansarinn hefur ekki viljað tjá sig efnislega um málið og segir það aðferð stjórnenda ballettsins til þess að draga athyglina frá óperu sem var frumsýnd á dögunum, og fékk afleita dóma.

Nokkrir dansarar hafa stigið opinberlega fram og stutt dansarann, meðal þeirra er rússneska ballerínan Anastasia Volochkova, sem var rekin frá ballettnum árið 2003. Ástæðan var sú að hún þótti of þung fyrir dansarana sem áttu að lyfta henni.

Hún skrifaði á Twitter að hún hefði verið svo heppin að eiga góða móður að þegar hún var rekin. Aftur á móti eigi Nikolai engan að, „og það er engin til þess að hugga hann,“ sagði hún meðal annars á twittinu.

Það er því ljóst að dramatíkinni er hvergi lokið hjá Bolshoi ballettnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×