Erlent

Sýruárás skekur listaheiminn

Filin í viðtali við rússneska fjölmiðla í dag.
Filin í viðtali við rússneska fjölmiðla í dag. MYND/ap
Listrænn stjórnandi rússneska Bolshoi balletsins, Sergei Filin, liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi í Moskvu eftir að sýru var skvett í andlit hans í gær. Filin hlaut þriðja stigs bruna í andliti. Læknar reyna nú að bjarga sjón hans.

Árásin átti sér stað fyrir utan heimili Filins. Hann lýsti árásinni í samtali við rússneska fjölmiðla í dag. Þar sagði Filin að grímuklæddur maður hefði beðið eftir sér. Hann öskraði síðan að Filin og skvetti sýrunni yfir hann.

Talsmaður Bolshoi balletsins sagði fjölmiðlum í dag að líðan Filins væri stöðug þó svo að áverkar hans væru alvarlegir.

Enn er ekki vitað hver tildrög árásarinnar voru. Líklegt þykir að ósætti innan balletsins hafi verið ástæðan. Frá því að Filin tók við sem listrænn stjórnandi balletsins árið 2011 hefur hann verið harðlega gagnrýndur fyrir vinnubrögð sín. Þá hefur honum margsinnis verið hótað lífláti á síðustu mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×