Erlent

Lostalyf fyrir konur kannski væntanlegt árið 2016

Tuiten segir 20-50% kvenna hafa lága kynhvöt.
Tuiten segir 20-50% kvenna hafa lága kynhvöt. Mynd/ GETTY

420 bandarískar konur taka nú þátt í prófunum á lostalyfinu Lybrido. Skapari þess vonast til þess að lyfið muni slá í gegn eins og Viagra gerði á sínum tíma, en um er að ræða einskonar „greddupillu."

Bandarísk lyfjayfirvöld munu taka ákvörðun um það í sumar hvort leyfi verði veitt fyrir markaðssetningu lyfsins, sem að sögn mun vera byltingarkennt fyrir konur sem finna eru með lága kynhvöt. Verði leyfið veitt verður Lybrido einskonar kvenna-Viagra og kemur á markað árið 2016 samkvæmt hollenska lífefnafræðingnum Adriaan Tuiten, sem fann upp lyfið. Tuiten hefur í 30 ár rannsakað kynhvöt kvenna.

Í viðtali við svissneska dagblaðið Sonntagsblick segir hann að taflan innihaldi allt önnur innihaldsefni heldur en Viagra, sem örvar blóðflæði. „Pillan brýtur ekki bara niður þær hindranir sem valda kynkulda heldur eykur hún líka hvötina. Pillan gerir hvort tveggja, dregur úr hömlunum og eykur lystina," segir Tuiten í viðtalinu.

Virkni Lybrido varir í tvær til þrjár klukkustundir og hefur að sögn Tuiten engar verulegar aukaverkanir í för með sér aðrar en mögulegan höfuðverk eða svima.

Tuiten bendir á kannanir sem sýna að á bilinu 20-50% kvenna séu með litla kynhvöt og hann er sannfærður um að Lybrido geti komið í veg fyrir framhjáhöld og bjargað samböndum.

Pillan er nú í seinasta fasa prófana sem munu skera úr um hvort fyrirætlanirnar um markaðssetningu lyfsins árið 2016 verði að veruleika.

Þetta kemur fram í danska dagblaðinu MX.DK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×