Erlent

Baltasar hafnaði boði um að taka við af Scorsese

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Martin Scorsese, einn þekktasti leikstjóri allra tíma.
Martin Scorsese, einn þekktasti leikstjóri allra tíma.
Baltasar Kormákur afþakkaði boð um að fá að leikstýra myndinni Snjómanninum. Martin Scorsese hafði áður tekið að sér að leikstýra myndinni en gaf verkefnið svo frá sér, segir á vef norska blaðsins Aftenposten.

Það er bandaríski kvikmyndarisinn Universal sem framleiðir myndina. Framleiðandinn hefur leitað til nokkurra einstaklinga um að þeir taki að sér leikstjórnina en allir hafa þeir afþakkað. Myndin byggist á sögu norska höfundarins Jo Nesbøs.

Það er nóg framundan hjá bæði Scorsese og Baltasar á næstunni. Sá fyrrnefndi er framleiðandi myndar sem byggist á ævi Franks Sinatra sem fer senn í framleiðslu. Þá mun hann líka koma að framleiðslum heimildarmyndar um Bill Clinton. Baltasar er aftur á móti enn að kynna mynd sína Djúpið um víða veröld og er jafnframt að leggja lokahönd á myndina 2 Guns. Sú mynd skartar Mark Wahlberg og Denzel Washington í aðalhlutverkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×