Erlent

Fjölmenni við útför Thatchers

Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar
Thacher borin til grafar.
Thacher borin til grafar.
Gríðarlegt fjölmenni er nú við jarðarför Margrétar Thatcher, forsætisráðherra Bretlands frá 1979 til 1990, en athöfnin fer fram í St Paul's Cathedral í London. Thatcher andaðist á mánudaginn 8. apríl þá 87 ára gömul, eftir hjartaáfall.

Kista hennar var færð til dómkirkju með opnum vagni, en honum fylgdu meðlimir flughersins. Um 2.300 manns eru viðstaddir útförina og um 4.000 þúsund lögregluþjónar standa vörð í miðborg Lundúna.

Meðal þeirra sem eru viðstödd eru drottningin og hertoginn af Edinburgh ásamt tveimur þjóðarleiðtogum og ellefu starfandi forsætisráðherrum. Mótmæli höfðu verið skipulög í tengslum við útförina en flestir viðstaddir eru þó mættir til að syrgja Thatcher.

Meðan á athöfninni stendur verður Big Ben-klukkan fræga í London þögul en það hefur ekki gerst síðan Sir Winston Churchill var jarðsettur árið 1965.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×