Erlent

Obama með athöfn í Boston

Jóhannes Stefánsson skrifar
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna Mynd/ AFP
Barack Obama forseti Bandaríkjanna og Michelle Obama kona hans ferðast til Boston í dag. Þar munu þau stýra trúarlegri athöfn í kjölfar sprenginganna í Boston á mánudaginn, þar sem þrír létust og 170 særðust.

Obama mun tileinka athöfnina „þeim sem slösuðust alvarlega og létust í sprengingum mánudagsins nærri endalínu Boston maraþonsins," samkvæmt dagskrá Hvíta hússins. Athöfnin hefst klukkan ellefu á staðartíma.

Obama hefur sem forseti komið fram fjórum sinnum í sambærilegum minningarathöfnum, allar í kjölfar skotárása í Bandaríkjunum: Newtown, Connecticut í desember; Aurora, Colorado í Júlí; Tucson, Arizona í janúar 2011 og Fort Hood, Texas í nóvember 2009.

Athöfnin er haldin í skugga pólitísks ósigurs Obama þar sem öldungardeildarþingmenn repúblikana hrintu í gær ýmsum tilraunum hans til að herða skotvopnalöggjöf í Bandaríkjunum. Obama var áberandi reiður í kjölfar þessa og gagnrýndi repúblikana í Hvíta húsinu harðlega þegar hann sagði: „Þegar upp er staðið er þetta skammarlegur dagur fyrir Washington." Þá bætti Obama því við að þetta væri bara „fyrsta lota," og hét því að hann myndi halda áfram að reyna að draga úr ofbeldi með því að takmarka byssueign, bæði með aðgerðum framkvæmdavaldsins og þingsins.

Sjá vef USA Today




Fleiri fréttir

Sjá meira


×