Erlent

Milljónir dauðsfalla má rekja til saltneyslu

Óhófleg saltneysla er margfalt hættulegri en ótæpileg sykurneysla ef marka má nýja bandaríska rannsókn.

Rannsóknarniðurstöðurnar verða birtar á árlegum fundi Hjartaverndarsamtaka Bandaríkjanna í New Orleans í dag. Það er hópur vísindamanna hjá Harvard-háskóla sem rýnt hefur í saltneyslu Bandaríkjanna á síðustu árum.

Að mati þeirra má rekja um tvær komma þrjár milljónir dauðsfalla á heimsvísu til ofneyslu salts. Sami rannsóknarhópur hafði áður rannsakað tengsl hjartasjúkdóma og neyslu sykraðra drykkja á borð við kók og pepsi. Slíkir drykkir eru taldir bera ábyrgð á dauða um tuttugu og fimm þúsund bandaríkjamanna á hverju ári.

Tengsl salts og harta- og æðasjúkdóma hafa lengi verið rannsökuð en þessi nýja rannsókn tekur saman niðurstöður úr fyrri rannsóknum.

Stjórnandi rannsóknarhópsins, doktor Darius Mozaraffarian, bendir á að neytendur geti auðveldlega hætt að drekka sykraða drykki. Það sé hins vegar mun erfiðara að forðast natríum eða salt, enda sé mikið af því í unnum matvörum og skyndibitum. Þar að auki séu það iðulega vinsælar vörur á borð við brauð og ost sem innihaldi of mikið salt.

Vísindamennirnir vonast til að matvælaframleiðendum verði settar reglur um notkun salts í vörum sínum. Í millitíðinni er neytendum bent á að fylgjast vel með innihaldslýsingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×