Erlent

Þurfti að dulbúa sig sem strák

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maria Toorpakai Wazir
Maria Toorpakai Wazir Mynd/Skjáskot
Hin 22 ára gamla Maria Toorpakai Wazir er ein fremsta skvasskona heimsins. Það er ekki síður merkilegt fyrir þær sakir að Toorpakai er frá Pakistan þar sem stelpur þurfa oftar en ekki leyfi til þess að fara út úr húsi.

„Ég er baráttukona, ég var fædd baráttukona og mun deyja baráttukona," segir Toorpakai í viðtali við BBC. Hugrekki var forsenda þess að hún gæti spilað skvass í landi þar sem fæstar stelpur fara lengra í skólakerfinu en í grunnskóla.

Fjögurra ára gömul klæddi hún sig í föt bræðra sinna, klippti hárið og kveikti í fötunum sínum fyrir utan húsið.

„Pabbi hló og sagði að nú væri kominn Genghis Khan í fjölskylduna," segir Toorpakai. Þegar hún varð eldri lenti hún ítrekað í slagsmálum. Þannig eignaðist hún vini að eigin sögn. „Það blæddi ítrekað úr höndum mínum, olnbogum og hnjám auk þess sem augabrúnirnar og andlitið voru stöðugt bólgin."

Þegar Toorpakai varð tólf ára ákvað faðir hennar að beina orkunni í íþróttir. Áherslan var sett á lyftingar.

„Hann var dálítið feiminn að segja fólki að ég væri stelpa. Hann sagði öllum að ég væri sonur sinn og héti Genghis Khan." Með því að telja fólki trú um að Toorpakai væri strákur fékk hún að keppa á mótum. Hún vann sitt fyrsta mót en svo áttaði faðir hennar sig á því að lyftingar á þessum aldri gætu haft áhrif á líkamsvöxt hennar.

„Svo ég hvatti hana til þess að spila skvass sem hún var þegar áhugasöm um," segir faðir hennar.

Upplifði algjört einelti

Skvass er vinsæl íþrótt í Pakistan og hefur þjóðin átt marga heimsmeistara. Konur frá Pakistan hafa einnig staðið sig vel en þó ekki úr hinu íhaldsama Waziristan svæði þar sem Toorpakai ólst upp.

Toorpakai varð heilluð af leiknum strax í fyrsta sinn sem hún sá hann leikinn. Einbeitingin í augum krakkanna og hinir fallegu spaðar, boltar og gallar vöktu aðdáun hennar.

Faðir hennar fór með hana í skvassfélag sem rekið var af her Pakistana. Í fyrstu áttaði enginn sig á því að hún væri stelpa en svo kom sannleikurinn í ljós.

„Þeir stríddu mér og notuðu ljótt orðbragð. Óvirðingin var alltof mikil. Þetta var algjört einelti," segir Toorpakai sem gafst þó ekki upp. Hún dvaldi klukkustundum saman við æfingar á vellinum frá morgni til kvölds.

„Ég var með blöðrur á höndnum, marin og úr mér blæddi en ég hélt áfram. Ég læsti mig inni og reyndi að þróa skotin mín. Studdist við mínar eigin æfingar."

Samfélagið ósátt
Maria Toorpakai Wazir
Æfingin skapaði svo bókstaflega meistarann þegar Toorpakai vann hvert mótið á fætur öðru og gerðist atvinnumaður árið 2006 á sextánda ári. Hún hlaut verðlaun frá forseta landsins en velgengnin var ekki öllum að skapi.

„Í okkar samfélagi fá stelpur ekki einu sinni að yfirgefa heimilið," segir faðir Toorpakai. „Þær ganga undantekningarlaust með slæðu og eru alltaf samferða karlkyns fjölskyldumeðlim. Fólk missti andlitið þegar það sá að Maria notaði ekki slæðu og keppti í skvassi í stuttbuxum. Við höfðum komið óorði á samfélagið og ég var harðlega gagnrýndur."

Föður hennar var hótað í nafnlausu bréfi þar sem minnt var á hefðir samfélagsins og múslima. Dóttirin skyldi ekki spila skvass. Ella yrðu afleiðingar. Faðir hennar stóð þó við bakið á henni og skvasssamband Pakistans gætti öryggis hennar. Þegar leyniskyttum var komið fyrir umhverfis skvassvöllinn taldi hún nóg komið.

Hún færði æfingarnar inn í herbergið sitt. Eins og gefur að skilja var ekki um heppilegustu æfingaaðstæður að ræða og meiðsli voru ítrekuð. Faðir hennar sá bara eina lausn. Hún yrði að yfirgefa landið ætlaði hún sér frama í íþrótt sinni.

Átrúnaðargoðið svaraði tölvupóstinum

Í þrjú og hálft ár skrifaði Toorpakai tölvupósta til skvassfélaga, skóla og háskóla í hinum vestræna heimi með það fyrir augum að finna sér nýjan samastað. Bréfin skiptu þúsundum. Eitt þeirra barst Jonathan Power, skvassgoðsögn í Kanada. Þá fóru hjólin að snúast.

Árangur Toorpakai vakti athygli Power sem setti sig í samband við hana. Toorpakai trúði ekki sínum eigin augum enda hafði hennar fyrsti skvassspaði verið með áritun frá Power. Hann sagðist vilja leiðbeina henni í Kanada.

Í dag er Toorpakai besta skvasskona Pakistana, búsett í Kanada og í 49. sæti á heimslistanum. Power segir hana eiga mikið inni og geti farið alla leið.

„Það mun taka tíma. Í fjögur ár bætti hún ekkert leik sinn enda æfði hún í herberginu sínu," segir Power. Nýtt umhverfi og góð kennsla geti stuðlað að miklum framförum hjá Toorpakai.

Faðir hennar er vægast sagt stoltur.

„Pakistan og allt samfélag múslima ætti að vera stolt. Í samfélagi okkar er slegið upp veislu þegar strákur fæðist. Fólk er pirrað þegar stelpa fæðist. Þetta viðhorf þarf að breytast," segir faðir hennar.

Toorpakai þakkar íþrótt sinni fyrir að hafa gefið henni tækifæri til þess að lifa öðru og betra lífi. Hún segir þjóð sína langþreytta á stríðum, sprengingum og mannránum. Fólk vilji frið og átti sig nú á gildi menntunar.

„Fólkið er feimið. Þeir þurfa góðan talsmann. Einhvern sem getur látið rödd þeirra heyrast og ég tel okkur geta hjálpað. Við munum stuðla að breytingum."

Umfjöllunin er byggð á viðtali BBC við Toorpakai.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×