Erlent

Þyrluslys í Berlín

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Einn lést þegar tvær flugvélar á vegum þýsku lögreglunnar skullu saman við æfingar nærri Ólympíuleikvanginum í Berlín í dag. Skyggni var afar lítið vegna snjókomu.

Flugmaður annarrar þyrlunnar lét lífið og fimm slösuðust, þar af fjórir alvarlega. Þyrlurnar virðast hafa skollið saman við lendingu.

Vitni á staðnum sagði í samtali við Telegraph að þrjár þyrlur hefðu átt að lenda á vellinum. Tvær þeirra voru við lendingu þegar stórt hvítt ský myndaðist vegna snjósins sem þyrlaðist upp á vellinum. Svo hafi heyrst sprengja, einhver öskrað "leggist niður" og brot úr þyrlunum þeyst í allar áttir. Þá hafi sést blóð á jörðinni.

Lögreglan var að æfa viðbrögð sín við ólátum á knattspyrnuvöllum en Ólympíuleikvangurinn í Berlín er heimavöllur Herthu Berlín. Rannsókn á orsökum slyssins stendur yfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×