Erlent

Cameron gefur hafrannsóknarstofnun djúpsjávarkafbát sinn

Leikstjórinn James Cameron hefur ákveðið að gefa hafrannsóknarstofnun í Bandaríkjunum heimsfrægan djúpsjávarkafbát sinn.

Í þessum kafbát sem kallast Deepsea Challanger kafaði Cameron niður á tæplega 11 kílómetra dýpi í Mariana gljúfrinu í vestanverðu Kyrrahafinu fyrir sléttu ári síðan. Þetta var mesta dýpi sem nokkur maður hefur kafað niður á undanfarin 50 ár.

Cameron var jafnframt fyrsti maðurinn í sögunni sem gerir þetta einn í kafbát. Tveir menn á vegum bandaríska flotans höfðu kafað niður á svipað dýpi á sjöunda áratug síðustu aldar.

Það er bandaríska hafrannsóknarstofnunin Woods Hole sem fær sérsmíðaðan kafbát Cameron til eignar. Cameron hefur jafnframt gefið í skyn að hafa ekkert á móti því að taka aðra dýfu með kafbátinum.

Þegar Cameron var staddur á 11 kílómetra dýpi í Mariana gljúfrinu tók hann mikið myndefni á þrívíddar kvikmyndavél. Þetta myndefni verður undirstaða fræðsluþáttar á vegum National Geographic sem frumsýndur verður á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×