Erlent

Pistorius reynir að leysa skaðabótamál utan réttarsalarins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Oscar Pistorius
Oscar Pistorius Nordicphotos/Getty
Oscar Pistorius, sem sakaður er um að hafa myrt kærustu sína, á í trúnaðarviðræðum við konu sem hefur sakað hann um árás. Frá þessu er greint í fjölmiðlum í Suður-Afríku í dag.

„Það eru trúnaðarviðræður í gangi og sátta er leitað," sagði Gary Prichard, lögmaður Pistorius í viðtali við þarlenda miðla.

Frjálsíþróttakappinn höfðaði mál á hendur Cassidy Taylor-Memmory árið 2009 sem sagði Suður-Afríkumanninn hafa skellt hurð á sig í veislu að heimili Pistorius.

„Þetta var fyrir tveimur árum. Hann fór fram á skaðabætur vegna þess að orðspor hans beið hnekki," segir Richard um skaðabótakröfu Pistorius upp á 30 milljónir króna.

Málið átti að koma fyrir rétti í dag en verið er að reyna að leysa það áður en til þess kemur.

Pistorius er sakaður um morð á kærustu sinni, Reevu Steenkamp, þann 14. febrúar. Hann segist hafa skotið hana fyrir mistök þar sem hann taldi um innbrotsþjóf að ræða. Hann er nú laus á tryggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×