Erlent

Faðir Reevu Steenkamp tjáir sig

Barry Steenkamp
Barry Steenkamp
„Það eru aðeins tveir sem vita fyrir víst hvað gerðist og þeir eru Oscar Pistorius og Guð," sagði Barry Steenkamp við dagblaðið Beeld í Jóhannesarborg í Suður-Afríku.

Oscar Pistorius, sem sakaður er um að hafa myrt kærustu sína að yfirlögðu ráði, var látinn laus gegn tryggingu í gær. Faðir Reevu Steenkamp segist viss um að Pistorius muni þjást vegna dauða dóttur sinnar.

„Það skiptir hvorki máli hve mikla peninga hann á né hversu gott lögfræðiteymi hann hefur. Hann verður að lifa með samvisku sinni ef hann leyfir lögfræðiteyminu að ljúga fyrir sína hönd," segir Barry Steenkamp.

„Ef hann er að segja satt þá mun ég kannski fyrirgefa honum," segir Steenkamp. „Ef þetta gerðist ekki eins og hann heldur fram þá mun hann þjást."

June Steenkamp, móðir hinnar látnu, segir dóttur sína hafa verið rænda af möguleikanum að stofna til fjölskyldu og gifta sig.

„Ég vil bara fá að syrgja dóttur mína í friði. Ég þarf að venjast lífi án hennar," sagði frú Steenkamp og ítrekaði að fjölskyldan vildi aðeins fá að vita sannleikann í málinu.

Oscar Pistorius varði fyrsta degi sínum úr haldi lögreglu með nánustu ættingjum sínum og vinum. Hann hefur ekki snúið aftur á heimili sitt þar sem atburðurinn átti sér stað fyrir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×