Erlent

Pistorius hágrét í réttarsal

Pistorius gengur inn í réttarsal í morgun
Pistorius gengur inn í réttarsal í morgun Mynd/AP
Spretthlauparinn Oscar Pistorius grét í réttarsal í morgun þegar hann var formlega ákærður fyrir morðið á kærustu sinni á heimili þeirra í gærmorgun.

Pistorius var leiddur inn dómsal í handjárnum af lögreglumönnum og huldi hann andlit sitt með jakka og stílabók. Hann grét stöðugt þegar saksóknari las upp ákæruna gegn honum en fram kom í máli hans að spretthlauparinn er ákærður fyrir að hafa myrt Reevu Steenkamp, kærustu sína af yfirlögðu ráði.

Samkvæmt frásögn fjölmiðla var andrúmsloftið í dómsalnum í morgun tilfinningaþrungið. Faðir hans hafi haldið í hönd hans allan tímann á meðan spretthlauparinn hágrét.

Dómari hafnaði því að láta hann lausan gegn tryggingu og verður hann því áfram í haldi lögreglu. Verjandi hans fór fram á að hann myndi dúsa í fangaklefa á lögreglustöð, en ekki fangelsi, á meðan rannsókn stendur yfir. Dómari féllst á þá kröfu verjandans.

Fréttastofan Sky News segir frá því að lík kærustunnar hafi fundist inni á baðherbergi íbúðarhússins og að hún hafi verið skotin fjórum sinnum með 9 millimetra skammbyssu í gegnum baðherbergishurðina.

Handtaka Pistorius er mikið áfall fyrir suður-afrísku þjóðina enda er spretthlauparinn álitinn þjóðarhetja eftir afrek sín á íþróttasviðinu síðustu ár. Hann varð fyrsti fatlaði íþróttamaðurinn til að keppa á Ólympíuleikum og sá fyrsti til að vinna gull í 100, 200 og 400 metra hlaupi á Ólympíleikum fatlaðra.

Pistorius og Steenkamp byrjuðu saman í nóvember síðastliðnum. Verði hann fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að lífsstíðarfangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×