Erlent

Skot hljóp úr byssu hjá Pistorius á veitingastað

Nordicphotos/Getty
Oscar Pistorius, sem grunaður er um að hafa myrt kærustu sína síðastliðinn föstudag, var nærri því að slasa vin sinn með byssuskoti að því er Suður-Afrískir fjölmiðlar greina frá.

Í frétt news24 kemur fram að Pistorius hafi verið á veitingastað í Jóhannesarborg ásamt vinum sínum snemma í janúar. Hann hafi sýnt byssu vinar síns áhuga og beðið um að fá að skoða hana.

„Oscar langaði bara að skoða byssuna og hún festist eiginlega í buxunum á honum sem varð til þess að taka öryggið af," segir Kevin Lerena vinur Pistoius sem hefur getið sér gott orð í hnefaleikum.

„Skot hljóp úr byssunni. Ég myndi ekki segja að Oscar hafi sýnt gáleysi, þetta var bara slys. Hann bað mig afsökunar í marga daga eftir atvikið," segir Lerena en skotið hæfði hann næstum því í fótinn.

Jason Loupis, yfirmaður á veitingastaðnum Melrose Arch, segir að málið hafi ekki verið tilkynnt til lögreglu þar sem gestirnir hafi þvertekið fyrir að atvikið hefði átt sér stað.

Loupis heyrði hvellinn en taldi að glas hefði brotnað. Gestirnir gáfu engar skýringar á hvellinum.


Tengdar fréttir

Bolt í áfalli vegna Pistorius

Usain Bolt átti í fyrstu erfitt með að trúa því að Oscar Pistorius hafi verið ákærður fyrir að myrða kærustu sína af yfirlögðu ráði.

Sterar á heimili Pistorius

Sterar fundust á heimili spretthlauparans Oscar Pistorius, sem grunaður er um morð á kærustu sinni, Reeva Steenkamp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×