Erlent

Einn hópnauðgarinn undir aldri - fær þrjú ár í versta falli

Almenningur á Indlandi hefur brugðist mjög hart við nauðguninni.
Almenningur á Indlandi hefur brugðist mjög hart við nauðguninni.
Indverskir dómstólar hafa úrskurðað að einn af karlmönnunum, sem eru ákærðir fyrir að hópnauðga og myrða 23 ára stúdent á Indlandi, sé undir lögaldri og verður því réttað yfir honum sem unglingi.

Það þýðir að þyngsti dómurinn sem hann getur fengið fyrir hina hrottafengnu nauðgun, eru þrjú ár. Verði hann dæmdur mun hann afplána refsingu sína í unglingafangelsi í Indlandi.

Töluverð ólga er sögð vera á Indlandi vegna úrskurðarins. En dómstólar segja að maðurinn sé fæddur í júní árið 1995. Hann er því sautján ára gamall.

Breska blaðið the Daily Mail hefur eftir föður fórnarlambsins að hann trúi ekki úrskurðinum. „Hvernig geta þeir komist að þessari niðurstöðu," er haft eftir honum. „Sjá þeir ekki hvað hann hefur gert," bætti faðir stúlkunnar við.

Hinir sem ákærðir eru fyrir að taka þátt í nauðguninni neita allir sök og einn þeirra heldur því fram að hann hafi verið pyntaður af lögreglunni.

Eins og kunnugt er þá eru mennirnir ákærðir fyrir að nauðga konunni í strætó en hún hafði farið í bíó fyrrr um kvöldið með vini sínum. Konan hlaut alvarlega innvortis áverka eftir nauðgunina og lést af sárum sínum tveimur vikum síðar. Réttarhöldin eru ekki byrjuð en unglingurinn kom fyrir unglingadómstól í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×