Erlent

Spielberg hlaut aðeins ein Golden Globe verðlaun

Leikstjórinn Steven Spielberg reið ekki feitum hesti frá Golden Globe verðlaunahátíðinni í gærkvöldi en mynd hans Lincoln hlaut aðeins ein verðlaun.

Mynd Spielberg um Abraham Lincoln Bandaríkjaforseta var tilnefnd til sjö Golden Globe verðlauna en uppskar aðeins ein þeirra. Daniel Day Lewis hlaut verðlaunin sem besti leikarinn í dramatískri mynd fyrir túlkun sína á Lincoln.

Ben Affleck er sigurvegari Golden Globe verðlaunahátíðarinnar sem haldin var í 70. skipti í gærkvöldi. Mynd hans Argo hlaut verðlaun sem besta myndin og Affleck sjálfur verðlaunin sem besti leikstjórinn.

Affleck er nú í þeirri sérstöku og einstæðu stöðu að hafa unnið Golden Globe verðlaunin sem besti leikstjórinn en á enga möguleika á að vinna einnig Óskarsverðlaunin í þessum flokki þar sem hann er ekki tilnefndur til Óskarsverðlauna.

Leikkonan Jessica Chastian hlaut verðlaunin sem besta leikkonan í dramatískri mynd fyrir hlutverk sitt í myndinni Zero Dark Thirty.

Quentin Tarantino hlaut ein verðlaun eða fyrir besta handritið í myndinni Django Unchained.

Myndin Les Miserables hlaut verðlaunin sem besta söngmyndin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×