Erlent

Indversku hrottarnir mættu í dómsal í morgun

Badri Singh Pandey, pabbi konunnar.
Badri Singh Pandey, pabbi konunnar.
Mennirnir fimm, sem grunaðir eru um að hafa nauðgað og misþyrmt tuttugu og þriggja ára konu um borð í strætisvagni í Nýju-Delí á Indlandi um miðjan síðasta mánuð, mættu nú á ellefta tímanum fyrir dómara í höfuðborginni.

Þeir eru kærðir fyrir mannrán, nauðgun og morð, en konan lést af sárum sínum á spítala í Singpúr í lok síðasta árs.

Málið gegn þeim var þingfest í morgun og samkvæmt fréttavef BBC eru réttarhöldin lokuð. Fréttamaður breska ríkissútvarpsins segir að mikill fjöldi blaðamanna, lögfræðinga og lögreglumanna séu við dómshúsið. En blaðamenn hafa ekki enn náð myndum af sakborningunum fyrir utan dómsalinn.

Verði mennirnir fimm fundnir sekir, eiga þeir yfir höfði sér dauðarefsingu.

Faðir stúlkunnar sagði við fjölmiðla í gær að hann vonaðist til að þeir yrðu hengdir.

„Allir íbúar landsins vilja að þessi skrímsli verði hengd. Ég vil það líka. Mig langar ekki að sjá þessa menn og því mun ég ekki mæta í réttarsalinn," sagði hann.

Í gær greindi lögreglan frá því að blóð úr konunni hefði fundist á fötum fimmmenningana og á líkama hennar hefði DNA-sýni úr þeim fundist.

Málið er mjög umfangsmikið. Til að mynda eru dómskjölin yfir 1000 blaðsíður, þar á meðal vitnisburður konunnar sem hún gaf lögreglu á spítalanum og frásögn 30 vitna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×